Og hvers vegna eru ekki allir á fullu að slaka á ?
Góð spurning og ég hef mikið velt henni fyrir mér þar sem ég hreinlega elska að gera slökunaræfingar. Án efa hafa þær hjálpað mér mest varðandi verkefnið “elsku líkaminn minn” sem hefur glímt við stoðkerfisvanda frá unglingsaldri ásamt viðkvæmu taugakerfi sem þróaðist út í vefjagigt með tilheyrandi sem hefur skert lífsgæði mín og vinnuþrek umtalsvert.
Markviss slökun er ótrúlega góð til að hjálpa mér að takast á við dagana og lífið almennt og mitt helsta meðal. Þar sem ég ligg og hlusta á leidda slökun eða hlusta á róandi tónlist og fer yfir líkamann í huganum, ekki til að sofna þó það komi auðvitað fyrir að ég detti út ef ég er óvenju þreytt.
Ég veit eða tel að flestir viti að það er mikilvægt að slaka markvisst á og það eru ýmsar leiðir til þess, samt gerum við það ekki reglulega eins og að fara í ræktina eða út að ganga eða hvaða aðra líkamsrækt. Það þarf að þjálfa "slökunarvöðvann" eins og aðra vöðva og koma ferlinu í rútínu. Einnig er mikilvægt að læra að þekkja streituvaldana sína og þeir geta verið ansi margir í okkar hraða og oft á tíðum krefjandi lífi.
Þó okkur finnist við slaka vel á þegar við liggjum og horfum á góða seríu í sjónvarpinu eða skrollum í símanum, pússlum, prjónum, lesum eða sinnum öðrum áhugamálum, þá fáum við ekki þá endurnæringu og orku sem markviss slökun veitir. Endurnæringu sem gerir okkur líka sterkari innan í okkur og meira tilbúin að takast á við lífið og tilveruna. Já og gefur meiri gleði í hjartað. Ég er sjaldnast glaðari í hjartanu og þegar ég geri hugleiðslu og slökunaræfingar reglulega.
Þegar ég tala um markvissa slökun þá á ég við að leggjast niður, eða sitja í góðum stól sem hægt er að halla aftur og annað hvort að hlusta á róandi tónlist eða leidda slökun í ca 10-20 mínútur. Lengri æfingar líkt og Jóga Nidra er gott að gera reglulega líka. Þú þarft ekki að leita lengi á netinu til að finna alls kyns slökunaræfingar.
Hvaða ávinningur fæst af því að slaka markvisst á?
Upptalningin hér á eftir er ekki tæmandi en ávinningur slökunar er meðal annars:
Jákvæð áhrif á huga og líkama
Betri einbeiting
Dregur úr þreytu - eykur orku
Minni verkir
Betra hugarástand - meiri hugarró
Dregur úr kvíða og streitu
Betri svefn
Endurnæring og öflugt viðgerðarferli fer í gang
Auðveldara að takast á við viðfangsefni dagsins
Þátttakendur á slökunarnámskeiðum hjá mér nefna oftast fyrst að þeir finni mun á hvað þeir sofi betur og svo fara hinir þættirnir að detta inn. Þegar mikil streita og þreyta er í kerfninu þá finnur fólk ekki mikinn orkumun strax heldur stundum þreytu eða syfju eftir slökun. Það tekur tíma að vinda ofan af ára eða áratuga spennusöfnun. Margir gera sér ekki grein fyrir hvað það er mikil streita í kerfinu þeirra eða hverjir streituvaldarnir eru. Því meira streita sem er í líkamanum því meiri líkur eru á að við þróum með okkur ýmsa kvilla og sjúkdóma.
Hvar og hvenær er best að slaka á?
Hvenær sem þér hentar og þú hefur næði til þess. Oft byrja ég daginn til dæmis á því að hlusta á slökunaræfingu.
Ef þú hefur lítið næði heima þá er spurning hvort þú getur fundið þér stund einhvern tíman yfir daginn í vinnunni eða tekið stutta slökun í bílnum, stoppað fyrir utan heimilið eða vinnuna, hallað sætinu aftur og sótt þér örstutta endurnæringu, eða farið út í náttúruna. Flestir eru með litlu heyrnartólin sín innan seilingar og þú getur alveg náð þér í endurnæringu í bílnum (samt ekki á keyrslu) eða í stólnum þínum í vinnunni. Allra best er að gera lagst og látið fara vel um sig undir teppi með slökun eða tónlist í eyrunum.
Ég er þeirrar skoðunar að það ættu að vera slökunarherbergi á hverjum einasta vinnustað þar sem hægt væri að leggjast í 5-15 mínútur daglega án alls áreitis og gera slökunaræfingu. Án efa myndi það bæta afköst og líðan starfsfólks.
Hér á síðunni minni er hægt að nálgast stutta slökun. Þú ferð í flipann “Ókeypis slökun”, skráir þig inn og getur hlustað á hana í tvo sólarhringa. Þar er líka mjög flott slökunarnámskeið sem þú getur keypt og þá færðu að eiga fjórar æfingar sem þú getur hlustað á aftur og aftur. Ég tek fólk einnig í einkaþjálfun í slökun. Það er fjögurra vikna ferli þar sem við hittumst vikulega, hjá mér eða í gegnum Zoom og fólk æfir sig þess á milli. Það er mjög góð leið til að finna taktinn við að koma markvissri slökun inn í rútínuna hjá sér og til að átta sig á hverjir streituvaldarnir eru í lífinu og finna leiðir til að minnka áhrif þeirra.
Gani þér vel að þjálfa "slökunarvöðvann" þinn og megir þú eiga ljúfan og slakandi og endurnærandi dag <3
Comments